Fjölskyldu- og velferðarmál

Þjónusta við fjölskyldur/börn og ungmenni

Við viljum að skólamáltíðir séu endurgjaldslausar fyrir foreldra grunnskólabarna.
Öll börn eiga rétt á hollri máltíð í hádeginu í einsetnum skóla.

Við viljum að Reykjanesbær verði leiðandi sem barnvænt samfélag og að börn og ungmenni hafi jöfn tækifæri til náms, frístunda og íþróttaiðkanna og fái að rækta hæfni sína og hæfileika á eigin forsendum án tillits til uppruna, kynþáttar, trúar eða kyns.

Við viljum að Reykjanesbær sýni metnað í úrræðum eins og félagsfærninámskeiðum og vináttuþjálfun fyrir börn og ungmenni, og fólk af erlendu bergi brotið.

Við viljum að Reykjanesbær hugi betur að lögbundinni þjónustu við börn og fjölskyldur og að fjármagn verði tryggt fyrir liðveislu og önnur sambærileg stuðningsúrræði velferðarþjónustu.

Við viljum að hugað sé betur að líðan grunnskólanemenda með því að auka fagþekkingu innan skólanna, meðal annars með skólafélagsráðgjöf.

Við viljum efla forvarnir á öllum sviðum en sérstakra umbóta er þörf vegna barna með áhættuhegðun.
Sveitafélagið þarf að efla úrræði fyrir þessi börn, til dæmis
fjölskyldumeðferð, vinnustaðanám og fleira sem stæðu fjölskyldum barnanna til boða samhliða úrræðum ríkisins.


Við viljum fjölbreyttan stuðning fyrir foreldra til þess að þeir geti stutt við aðlögunarfærni og líðan barna sinna.

Við viljum finna leiðir til þess að styrkja og styðja við dagforeldra í Reykjanesbæ og stuðla að endurnýjun í starfstéttinni og atvinnuöryggi þeirra.

Við viljum auka fjölbreytileika búsetuúrræða fyrir fatlað fólk og öryrkja. Reykjanesbær hefur dregist úr í þessum málaflokki. Þjónusta við eldri borgara

Við viljum að hugað sé betur að líðan og heilsu eldri borgara og að fjármagn verði tryggt í verkefnið Fjölþætt heilsuefling 65+.

Við viljum að Reykjanesbær styrki tekjulága eldri borgara til þátttöku í tómstundum og
félagsstarfi og að settar verði á hvatagreiðslur fyrir tekjulága eldri borgara.

Við viljum að hugað verði að byggingu nýs hjúkrunarheimilis í bænum strax eftir að því sem er í byggingu, er lokið því nýja hjúkrunarheimilið nær ekki að tæma biðlistana og eldri borgurum fer bara fjölgandi.

 

Fræðslumál

Við viljum vinna að heilstæðri áætlun um uppbyggingu leik- og grunnskóla til næstu 20 ára miðað við áætlun um íbúaþróun á því tímabili. Inni í þessari áætlun yrði líka að vera áætlun
um framhaldsskóla og jafnvel háskóla á svæðinu.

Við viljum leggja grunn að nýjum grunnskóla á Ásbrú.

Við viljum umbætur í málum Framhaldsskólans á Suðurnesjum, við verðum að fara að huga
að framtíðinni í samstarfi við ríkið til að sinna ört vaxandi íbúðafjölda. Eins er það óviðunandi að nemendaígildi sé metið minna í Reykjanesbæ en annarsstaðar á landinu og við munum krefjast umbóta þar frá ríkisvaldinu og sama fjármagn með hverjum nema og tíðakast í öðrum sambærilegum skólum.

Við viljum aukið fjármagn til kennslu innflytjenda og nema af erlendum uppruna, og hjálpa þeim nemum að aðlagast og læra á samfélagið sitt. Reykjanesbær er fjölmenningasamfélag,
ekki síst í skólunum.

 

Íþrótta og tómstundamál

Við viljum auka aðgang þeirra barna sem eru búsett á Ásbrú að íþróttum og tómstundum. Jafnframt þarf að huga að íþróttasvæðum á Ásbrú, til dæmis spark- og körfuboltavöllum.

Við viljum að börn og ungmenni geti tekið þátt í íþróttum og tómstundum við hæfi án tillits til búsetu og tekna foreldra.

Við viljum móta langtímastefnu um uppbyggingu íþróttamannvirkja í samráði við Íþróttahreyfinguna í Reykjanesbæ.

 

Helguvík og hafnarsvæðin

Við viljum ekki mengandi stóriðju í Helguvík eða annarsstaðar í sveitafélaginu. Við teljum að
skoða verði ítarlega möguleg umhverfis- og mengunaráhrif dótturfyrirtækis Almex USA Inc sem hyggst koma að framleiðslu á endurvinnslu á áli í Helguvík. Þar með talið sjón- og hávaðamengun.

Við viljum uppbyggingu í Helguvík á ómengandi iðnaði sem og uppbyggingu
Helguvíkurhafnar.

Við viljum uppbyggingu Skipasmiðastöðvarinnar Njarðvíkur í Njarðvíkurhöfn og léttan iðnað þar í kring.

Við teljum mikilvægt að Landhelgisgæslan fá heimahöfn í Njarðvíkurhöfn.

 

Fjármál og stjórnsýsla

Við viljum auka við rafræna þjónustu Reykjanesbæjar. Gera íbúum auðveldar fyrir að sækja þjónustu og koma skoðunum sínum á framfæri við ráðamenn og embættismenn bæjarins og hjálpa þannig til við að gera stjórnsýsluna vingjarnlegri og aðgengilegri fyrir bæjarbúa.

Við viljum umbætur í fjármálastjórnun. Við viljum að fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar sé unnin með hliðsjón af framtíðarmarkmiðum Reykjanesbæjar og raunkostnaði þeirra. Ítrekaðir
viðaukar við fjárhagsáætlun hvert ár er ekki ásættanleg fjármálastjórnun.

Við viljum aukið gagnsæi á fjármálum Reykjanesbæjar, meðal annars með þriggja mánaða uppgjöri og auknum færslum á Gagnatorgi um stöðu fjármála, eins og tekjum og rekstrarkostnaði og útboðum á vegum bæjarins. Gagnsæi í ráðstöfun fjármuna bæjarins kemur í veg fyrir spillingu, sóun og frændhygli sem þrífst í lokaðri stjórnsýslu. Sorglega lítið fjármagn hefur farið í uppbyggingu innviða undanfarin ár og nú er svo komið að það verður ekki lengur við það unað. Það verður eitt stærsta verkefni nýrrar bæjarstjórnar að nýta fjármagnið rétt í uppbyggingu innviða í þágu allra bæjarbúa.

 

Íbúðalýðræði

Við viljum íbúalýðræði sem leggur grunn að sterkara og betra samfélagi. Við leggjum áherslu á að komið verði á hverfisráðum og að hverfin fái ákveðið fjármagn að vinna með til að styrkja hverfin sín sem einingar innan bæjarins.

Rafrænn Reykjanesbær er forgangsverkefni því þannig fást borgararnir frekar til að koma með álit og leggja sínar skoðanir á vogaskálarnar.


Bæjarfulltrúar Umbótar munu vera með vikulega viðtalstíma fyrir bæjarbúa til að koma sínum málum og athugasemdum um á framfæri.

Öll stærri mál og ágreiningsefni á að fara með í íbúakosningu.

 

Fjölmenningarsamfélagið

Reykjanesbær er fjölmenningarsamfélag og með töluverða sérstöðu sem slíkur. Bærinn á að vera leiðandi í umræðunni um móttöku og aðlögun erlendra borgara sem vilja setjast hérna að. Bærinn á, í samvinnu við ríkisvaldið eða í samvinnu við Evrópskar stofnanir á þessu sviði, að ráðast í rannsóknir á högum fólks af erlendum uppruna til að sjá hvar er hægt að bæta hag þeirra, þekkingu og áhuga á samfélaginu. Gera þarf alla stjórnsýsluna aðgengilegri með því að kynna rafrænar leiðir að stjórnsýslunni á nokkrum tungumálum.

 

Atvinnumál

Við viljum standa vörð um fjölbreytta atvinnuuppbyggingu í Reykjanesbæ. Forsenda þess er að tryggja orku fyrir svæðið með Suðurnesjalínu 2.

Við viljum að Reykjanesbær markaðssetji sig beint til fyrirtækja, til dæmis fyrirtækja í matvælaframleiðslu, ferðaiðnaði og léttum hreinlegum iðnaði, hér er nægt landsvæði til bjóða fyrirtækjum aðstöðu þar sem þau geta vaxið og dafnað. Má í því samhengi nefna fyrirtæki í útflutningi og benda á nálægð við alþjóðaflugvöllinn.

Reykjanesbær á að leiða umræðuna um að innanlandsflugið verði flutt til Keflavíkur og alþjóðaflugvöllurinn styrktur í leiðinni. Allri umræðu um að flytja alþjóðaflugvöllinn frá Keflavík eitthvert annað á suðvesturhorninu á að svara af festu og berjast fyrir því að flugvöllurinn fari hvergi og verði efldur sem slíkur ef eitthvað er. Keflavíkurflugvöllur er einn stærsti vinnustaður landsins og huga þarf að framtíðinni með vöxt í flugvallarins að leiðarljósi. Samgöngur á milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins má bæta verulega
með tvöföldun Reykjanesbrautarinnar alla leið.

Við viljum að Reykjanesbær sé leiðandi í samtali við ríkið um að ríkisstofnanir flytjist til Reykjanesbæjar.

 

Ásbrúar svæðið

Við leggjum áherslu á uppbyggingu íbúasvæðis á Ásbrú og þéttingu byggðar.

Við viljum að það sé forgangur Reykjanesbæjar að tengja Ásbrú betur við Reykjanesbæ, auka áherslu á tómstundir og útivistasvæði á Ásbrú, ræktun trjágróðurs og fegrun svæðisins.
Leggja göngustíga, gangbrautir, hjólastíga og auka grundvallarþjónustu á svæðinu.

Við viljum auka aðgang barna á Ásbrú að tómstundum og íþróttum með samgöngum sem gagnast þeim.

 

Umhverfis- og skipulagsmál

Við viljum ekki öryggisvistun innan um eða við íbúabyggð. Það þarf að finna þeirri starfsemi staðsetningu sem er ásættanleg fyrir bæjarbúa.

Við viljum leggja áherslu á uppbyggingu innviða. Með stækkun og þéttingu byggðar þarf átak í gatnagerð með tilliti til umferðarþunga og frárennslismála í eldri byggðum.

Við viljum leggja áherslu á orkuskipti í samgöngum, þörf er á fleiri hleðslustöðvum í Reykjanesbæ

Við viljum að Ásbrú og Ásahverfið tengist með hjóla- og göngubrú yfir Reykjanesbrautina.

Við viljum fleiri ruslafötur um Reykjanesbæ.

 

Heilsöryggi

Mikilla umbóta er þörf til að tryggja heilsuöryggi íbúa Reykjanesbæjar. Það er starf stjórnenda bæjarins að sjá til þess að hér sé örugg og góð heilsugæsla og heilbrigðisstofnun. Bæjarstjórn þarf að taka opinskátt samtal við ríkisvaldið um heilsuöryggi bæjarbúa og vinnuaðstöðu þeirra sem vinna á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Huga þarf að neyðarþjónustu á Heilbrigðisstofnuninni ef til stórslyss kemur, eða ef náttúruvá eins og eldgos kemur of nálægt byggð á Suðurnesjum. Það er ríkisvaldsins að tryggja öllum þegnum sínum heilsuöryggi og það er bæjarstjórnar að gæta þess að ríkisvaldið hafi ekki lögbundna þjónustu af þegnunum.